Híbýlaauður er rannsókna-, viðburða- og útgáfuverkefni spunnið út frá arkitektónískum og hagrænum rannsóknum í samhengi við húsnæðisuppbyggingu á Íslandi. Áhrif gæða íbúða á upplifun, líðan og tengsl milli fólks eru leiðarstef Híbýlaauðs. Áherslunni er beint að íbúanum og því að skapa híbýlaauð fyrir þá sem búa ekki síður en þá sem byggja.

Fyrir hvern er verið að byggja?
Magn, framboð og fermetrar eru fyrirferðarmiklir þættir í umræðu um húsnæðismál. Gjarnan er spurt hversu mikið á að byggja en ekki hvernig við viljum búa og byggja. Fátt er hins vegar mikilvægara fyrir líf okkar og lífsgæði en hönnun og skipulag húsnæðis sem mótar rammann um daglegt líf okkar.

Gæði!
Lýðheilsu- og umhverfisáskoranir samtímans kalla sem aldrei fyrr á gæði í hönnun og skiplagi og vistvæna nálgun í íbúðauppbyggingu. Birta, rýmisgerð, sól og skjól eru meðal mikilvægra áhrifaþátta á líðan og daglegt líf, gæði sem verða að vera forgangsmál í íbúðauppbyggingu og þéttingu byggðar.

Anna María Bogadóttir arkitekt leiðir verkefnið  fyrir hönd Úrbanistan í nánu samstarfi og samtali við aðra aðila Híbýlaauðs:

Ásta Logadóttir doktor í verkfræði
Ásgeir Brynjar Torfason doktor í fjármálum
Elsa Ævarsdóttir innanhússarkitekt
Hildur Gunnarsdóttir arkitekt
Hólmfríður Ó. Jónsdóttir arkitekt
Hrefna Björg Þorsteinsdóttir arkitekt
Snæfríð Þorsteins hönnuður

Með rannsóknum, viðburðum og útgáfu er markmið Híbýlaauðs að miðla þekkingu og reynslu á sviði arkitektúrs, hönnunar, verk- og hagfræði í samtali við önnur fagsvið og framkvæmdaaðila.

Híbýlaauður áætlar útgáfu árið 2025.

Híbýlaauður hefur hlotið styrk úr Aski mannvirkjarannsóknasjóði, Hönnunarsjóði Íslands, Miðstöð íslenskra bókmennta, Minningarsjóði Guðjóns Samúelssonar, Myndstef og Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Híbýlaauður hefur heimilisfesti hjá Úrbanistan
Skólavörðustígur 12, 101 Reykjavík
hibylaaudur@hibylaaudur.is