Þegar íbúðir eru hannaðar þarf að sjá til þess að skapa gott umhverfi svo að íbúar fái tækifæri til að þrífast og dafna inni í íbúðinni.
Raunin sýnir að innivistarþættir svo sem dagsljós, raflýsing, loftgæði, hiti og hljóðvist eru almennt metin sem afgangs stærðir í hönnun íbúða og einnig að útsýni er fyrirfram frátekið fyrir þá efnameiri.
Við erum að mörgu leyti orðin með vituð um heilsuna okkar, t.d. hvað varðar matarræði, hreyfingu, svefn og útiveru. Raunin sýnir samt að við dveljum mest megnis tímans innan dyra og því þarf að tryggja heilsusamlegt umhverfi á heimilinu sem og í öðrum byggingum.
Innivist snýr að lýðheilsu. Ef við hlúum ekki að forvörnum í formi umhverfis, næringu, hreyfingu og svefns þá kostar það okkur heilsuna og það er dýrt fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Innivistarþættirnir hafa misjöfn áhrif á okkur, til dæmis hafa hiti, ljós og loftgæði áhrif á frammistöðu okkar í dagsins önn. Ljósið hefur einnig áhrif á dægur sveifluna okkar og því er hægt að stuðla að góðum svefnvenjum með ljósi. Í mesta kuldanum á veturna er rakastig í íbúðum alltof lágt á Íslandi og því getur það valdið húð og slímhúðaróþægindum. Útsýni yfir langan veg dregur úr streytu og svo hefur hljóðvist til dæmis áhrif á einbeitingu.
Meginhluti þeirra íbúða sem verið er að byggja í dag skiptast upp í tvo hópa. Það er hópurinn sem fær útsýnið og góðu innivistina og svo er það hinn hópurinn sem situr eftir í skugganum af góðu íbúðum. Þessi aðgreining er rétt að byrja á þéttingarreitum sveitarfélaganna. Það stefnir allt í meiri og meiri aðgreiningu á milli þeirra sem fá forsendurnar til að lifa heilbrigðu lífi og þeirra sem ekki fá forsendur til að lifa heilbrigðu lífi í sínum íbúðum.
Niðurstaðan er að núverandi ástand virkar ekki. Breytum þessu, köstum okkur út í að prófa eitthvað nýtt. Lærum af þeim sem hefur tekist vel til. Prófum okkur áfram, þorum að mistakast og læra af því. Staðan í dag er sú að við erum að upplifa mistök fyrri ákvarðana og það er ekki nógu gott að staðnast í mistökunum – af þeim þarf að læra og reyna að gera betur næst.
Draumurinn væri að þéttbýlustu sveitar félögin byðu uppá þétta, spennandi og skemmtilega byggð með íbúðum þar sem forsendur væru til staðar fyrir íbúa til að þrífast og dafna.
Mikið útsýni, gott dagsljós, góð hljóðvist, gott hitastig og góð loftgæði í allar íbúðir takk!